Laugavegurinn hefur orðið mörgum skáldum yrkisefni, þar á meðal borgarskáldinu Tómasi Guðmundssyni sem snemma haustið 1918 varð lífið og sálin í nýlendu ungra námsmanna sem bjuggu á Laugavegi 28 og 34b. Í síðarnefnda húsinu bjó Tómas uppi á lofti, en húsið var þá raflýst með steinolímótor sem Jónatan Þorsteinsson kaupmaður átti. Tómas lýsti þessum árum í kvæðinu „Við Laugaveginn“ og ekki laust við að skólaáranna sé minnst með trega:

 

Oft verður mér af vana gengið hér,

sem von á því ég eigi,

að gömul kvæði hlaupi móti mér

á miðjum Laugavegi.

En hérna voru skólaskáldin hyllt

af skáldbræðrum og vinum.

Og eitt var með þeim skáldum öllum skyllt:

Þau sköruðu framúr hinum.

Um heimsfrægð þá, sem hvers af okkur beið

var hinsvegar enginn vafi.

í ferskri dýrð og furðu tíminn leið.

Við féllum oft í stafi.

Og ennþá legg ég leið um forna slóð

og leita helgra dóma.

En langt er síðan list og andi stóð

við Laugaveg í blóma.

 

Heimild: Sigurður Einarsson í Holti: „Skálds og skólabróður minnzt“.Eimreiðin, 1. tbl. 1961.