Sú var tíð að varla nokkur karlmaður sást á ferli utandyra án höfuðfats og hattarnir voru af ýmsum gerðum, kúluhattar, pípuhattar, linir og mjúkir eða harðir og svo framvegis. Nú á dögum heyrir til algerra undantekninga að karlmenn gangi með hatta, en þær kynslóðir karlmanna sem ekki gátu farið út fyrir hússins dyr án hatts eru nú svo til alveg horfnar yfir móðuna miklu.

Sá siður var viðhafður á fyrri hluta tuttugustu aldar í höfuðstaðnum að karlmenn tóku ofan hatta til að heilsa konum úti á götu. Eldri kona lýsti þessum tíma eitt sinn svo:

„Ímyndaðu þér að ganga niður Bankastræti og það er einmitt einn af þessum dögum þegar þú ert dálítið döpur og ekki sem dömulegust. En, – þá mætir þú þessum myndarlega herramanni sem þú rétt kannast við og hann tekur ofan fyrir þér eins og aðalsfrú um leið og hann býður þér góðan daginn. Þú getur rétt ímyndað þér áhrifin.“

Borsalino-hattalagið þótti fínast hér á árum áður, en þeir hattar voru seinna kallaðir Bogart-hattar, í höfuðið á Humphrey Bogart. Börðin á Borsalino-höttum voru aðeins uppbrett, en hattar með sléttum börðum voru kallaðir Battersby-hattar.

Hattanotkun dalaði mikið eftir miðja síðustu öld og sér í lagi þegar komið var fram á sjöunda áratuginn og sítt hár komst í tísku meðal karlmanna. Hólmfríður Guðsteinsdóttir, dóttir Guðsteins Eyjólfssonar starfaði lengi við verslunina. Hún sagði í viðtali við Morgunblaðið árið 1988 að hattar hefðu lítið breyst í gegnum tíðina, nema hvað börðin hefði minnkað mikið frá því sem áður var.

Enn seljum við hatta í Verslun Guðsteins. Það er einkennandi fyrir þá menn sem kaupa hatta að yfir þeim er virðuleiki. Þeir eru klassískir í klæðaburði og vita hvað þeir vilja.