Myndin sýnir hjónin Guðstein Eyjólfsson og Guðrúnu Jónsdóttur og er tekin um 1915. Guðrún var ættuð af Rangárvöllum. Hún var annáluð hannyrðakona og vann við saumaskap þegar þau Guðsteinn kynntust. Guðrún þótti hafa einstakt lag á klaustursaum og frönsku og ensku bróderíi. Þau Guðsteinn giftust 9. nóvember 1913, skömmu eftir að hann hafði lokið meistaranámi í klæðskurði í Kaupmannahöfn. Guðrún fékkst alla tíð við saumaskap, merkti hún meðal annars dúka og rúmföt. Hún var einkar skipulögð og ólík manni sínum að því leyti. Þau munu þó hafa bætt hvort annað upp, en samband þeirra þótti sérlega gott og sýndu þau hvort öðru mikla virðingu. Guðrún lést langt um aldur fram 13. nóvember 1942, eftir að hafa fengið skyndilega sýkingu, en hún hafði þó alla tíð verið mjög heilsuhraust. Síðar sagði Guðsteinn svo frá í blaðaviðtali að hann ætti konu sinni allt að þakka, alla sína afkomu, allt sitt lífsstarf. Hún hefði verið „einstök manneskja á öllum sviðum“.