Í þarnæsta húsi fyrir innan okkur, Laugavegi 36, standa nú yfir miklar framkvæmdir. Það hús var reist árið 1925 og þar hefur bakaríið G. Ólafsson & Sandholt verið rekið alla tíð, en nú er fyrirtækið eingöngu kennt við Sandholt. Hér verður stuttlega sagt frá sögu þessa merkilega fyrirtækis og hússins við Laugaveg 36.

Brauðbúð G. Ólafssonar & Sandholt með elstu innréttingunni.

 

Stefán Sandholt var fæddur á Ísafirði 10. apríl 1886. Hann hóf nám innan við fermingu í bakaríi Ásgeirs Ásgeirssonar kaupmanns á Ísafirði. Ungur hélt hann til Noregs og lauk sveinsprófi í kökugerð í Túnsbergi og vann um tíma í Ósló og síðar Þrándheimi. Að því loknu, árið 1908, kom hann heim og stofnaði bakarí á Laugavegi 7, en hætti þeim rekstri brátt aftur. Eftir það vann við bakstur hjá Sveini Hjartarsyni í Björnsbakarí allt þar til árið 1918 að hann tók við meistarastöðu í Alþýðubrauðgerðinni, sem tekið hafði til starfa árið áður.

Guðmundur Ólafsson var fæddur að Minna-Mosfelli í Mosfellssveit 2. ágúst 1892. Hann lærði í Björnsbakaríi og tók sveinspróf árið 1913. Eftir það fór hann til Ameríku og vann í Winnipeg í nokkur ár, en heimkominn tók hann við forstöðu Björnsbakarís.

Hinn 3. apríl 1920 stofnuði þeir Stefán og Guðmundur bakarí í húsinu númer 42 við Laugaveg undir nafninu G. Ólafsson & Sandholt, en þetta sama ár urðu þeir Stefán og Guðmundur aðalhvatamenn að stofnun Bakarameistarafélags Reykjavíkur og voru í fylkingarbrjósti þess félags um langt árabil, en Stefán var lengi formaður félagsins. Þá var Guðmundur formaður Sambands bakarameistara, sem var innkaupafélag bakarameistara. Stefán þótti mjög laginn samningamaður og kom aldrei til verkfalls bakarasveina allan þann tíma sem hann var formaður meistarafélagsins, en hann hafði áður verið formaður sveinafélagsins.

Fáeinum árum eftir stofnun bakarísins byggðu þeir stórt og veglegt íbúðarhús, ásamt bakaríi á Laugavegi 36. Húsið er þrílyft og var brauðgerðin og bakaríið á götuhæðinni en fjölskyldur Guðmundar og Stefáns bjuggu á sitt hvorri efri hæðanna, Stefán á annarri hæðinni og Guðmundur á þeirri þriðju. Brauðgerðarhús þeirra var eitt hið fullkomnasta sem byggt hafði verið hérlendis.

 

Ásgeir Sandholt bakari árið 1998. Dóttursonur hans og nafni, Ásgeir Þór Tómasson sést í bakgrunni. Hér sést vel bakaraofninn frá 1939 sem enn er í fullri notkun.

 

Kona Stefáns hét Jenny Christiensen og var frá Hortens í Noregi. Þau áttu sjö börn. Ásgeir sonur þeirra fæddist árið 1913. Þrettán ára gamall hóf hann að læra bakaraiðn og sótti nám í Iðnskólanum á kvöldin milli klukkan sjö og tíu. Eftir að námi lauk var hann tvö ár í Danmörku, frá 1932 til 1934, til að nema kökubakstur. Þegar hann byrjaði var allt hnoðað í höndunum. „Deigið pumpað með handafli, en nú þarf nánast bara að ýta á takka,“ sagði hann síðar í viðtali og bætti við: „Varla gátu aðrir en hraustustu menn og fílefldir gert þetta að atvinnu sinni. Bakarinn þurfti að taka á móti og lyfta 100 kg rúgmjölspokum, en nú kemur mjölið í 25–30 kg sekkjum og allt flutt fram og aftur á paljettum. Allt var gert með handafli, en upp úr 1920 fór ein og ein vél að koma.“

Þegar Stefán, faðir Ásgeirs, og Guðmundur Ólafsson opnuðu bakaríið keyptu þeir kolaofn sem fluttur var í nýja húsið á Laugavegi 36. Og þegar rúgbrauðsgerðin í Gastöðinni hætti keyptu þeir vélarnar þar. En það var ekki fyrr en 1939 að þeir skiptu yfir í rafmagnsofn, en sá bakaraofn er enn í fullri notkun í bakaríinu.

Ásgeir var eitt sinn spurður hvort honum hafi aldrei óað við að fara út í svo erfiða iðn og þurfa alla ævi að vakna um miðja nótt og halda til vinnu þegar aðrir sofa, sagðist hann enga rellu hafa gert sér af því, enda ekkert spurt um það: „Ég er nú svo heppinn að ég get hvenær sem er sofnað um leið og ég leggst út af og þarf ekki nema þriggja tíma svefn. Legg mig ekkert á daginn. Er sama hvort ég sef þrjá eða sjö tíma á nóttu. Pabbi var svona og Stefán sonur minn líka. Það er upplagið. Og maður getur tamið sér þetta,“ sagði Ásgeir.

Rekstur Sandholtsbakarís var mjög umfangsmikill hér á árum áður. Þannig voru um skeið reknar fjórtán smábúðir bakarísins í einu vítt og breytt um borgina og sjö bakarar unnu á Laugaveginum. Þá ók bílstjóri með brauðið í búðirnar, en eftir því sem húsaleiga hækkaði og bakaríum fjölgaði fækkaði sölubúðum Sandholtsbakarís. Á árum kreppu og hafta urðu bakarar að innheimta skömmtunarseðla af viðskiptavinum fyrir brauðinu – en ekki fékkst afgreitt mjöl nema skömmtunarseðlar væru afhentir verðlagsyfirvöldum.

Þegar Guðmundur Ólafsson dó 1949 keypti Stefán hans hlut. Ásgeir sonur hans kom inn í fyrirtækið og enn síðar Stefán yngri, sonur hans. Ásgeir Sandholt eldri lést árið 2003 á nítugasta aldursári, en þá voru ekki mörg ár síðan hann lét af störfum í Sandholtsbakaríi. Afkomendur Stefáns Sandholts reka Sandholtsbakarí enn með miklum myndarbrag.

 

Húsið að Laugavegi 36

Laugavegur 36 er þrílyft með risi. Íbúar hússins þurrkuðu lengi tauið í risinu, en þvottahús var í bakhúsi og var talað um að fara „upp í kjallara“. Þaðan var tauið síðan borið upp í ris. Þar uppi var einnig strauherbergi og búr, þar sem geymdar voru sultur og fleira. Skrifstofa bakarísins var líka uppi í risinu.

Auðbjörg, dóttir Guðmundar, bjó áfram á þriðju hæðinni eftir að faðir hennar lést. En eftir andlát Stefáns bakara var önnur hæðin leigð út undir læknastofur í mörg ár. Þar var Axel Blöndal heimilislæknir með stofu þar sem áður var svefnherbergi Stefáns og Jennyar og fleiri læknar. Síðar voru þarna skrifstofur Barnaverndarstofu Íslands. Þegar hún flutti inn í húsið stóð til að rífa í burtu allar gamlar innréttingar, þar með talið rósettur í loftum. Guðrún Jónsdóttir, arkítekt og húsafriðunarkona, mun hafa komið í veg fyrir að það yrði gert.

 

Auglýsing Karls J. Sörheller frá árinu 1964.

 

Í eystra verslunarplássinu var upphaflega Sápubúðin sem Egill Sandholt rak. Síðar verslaði Norðmaðurinn Karl J. Sörheller þar með húsgögn í 20 ár, en hann var bólstrari að mennt og hafði vinnustofu sína innar í plássinu. Síðar var Karl með bólstrun í gamla húsinu sem stóð innar á lóðinni og var dyrum breytt til að koma stórum húsgögnum þangað inn. Þar bjuggu líka bakarar áður fyrr í einstaklingsherbergjum. Þetta hús stóð upphaflega út við götuna, en frægasti íbúi þess var skáldkonan Torfhildur Hólm. Húsið var orðið ónýtt fyrir mörgum árum.

 

Skáldkonan Torfhildur Hólm bjó á Laugavegi 36. Húsið sem hún bjó í var síðar flutt innar á lóðina.

 

Síðar kom gullsmiður í plássið austanmegin í húsinu, Malmberg frá Hafnarfirði og því næst gleraugnaverslunin. Á sama tíma fór fram linsumátun og slípun á glerjum á þriðju hæðinni. Eftir að gleraugnaverslunin hætti starfsemi var fataverslun í plássinu í nokkur ár uns veitingasalur bakarísins var stækkaður, svo hann nær nú yfir alla götuhæðina. Á næstu mánuðum verða síðan innréttuð hótelherbergi á efri hæðum hússins.