Öll þekkjum við rúntinn, en hann er í nútímanum gjarnan kenndur við tilteknar ökuleiðir um miðbæinn. Rúnturinn á sér langa og merkilega sögu, en lengst af var um gönguleiðir að ræða. Indriði Einarsson lýsti rúntinum svo um 1865: „Við göngum niður Aðalstræti austur Fortogið [Austurstræti], suður með Austurvelli að austan, vestur Kirkjubrú [Kirkjustræti] inn í Aðalstræti aftur, og höfum þá gengið litla runt ... En við gjörum betur en þetta og göngum stóra runt. Þá göngum við Aðalstræti, Austurgötu [Austurstræti] alveg að læknum, þar förum við suður „Heilagsandastræti“ [Lækjargötu], vestur Kirkjubrúna, og inn Aðalstræti aftur.“

 

Umferðin silast niður Bankastrætið og inn Austurstræti árið 1967, en Indriði Einarsson lýsti rúntinum eins og hann var rúmri öld fyrr.

Þórbergur Þórðarson lýsti rúntinum um 1910 svo: „Við áttum alltaf víst að sjá nægan forða af spássérandi kvenbrigðum niðri á Rúntinum, ekki einstaklinga, heldur heilan lager. Í þá daga voru til tveir Rúntar, minni Rúntur og stærri Rúntur. Minni Rúnturinn var kringum Austurvöll. En stærri Rúnturinn var frá norðvesturhorninu á Hótel Ísland, lá þaðan suður Aðalstræti, austur Kirkjustræti, norður Pósthússtræti og vestur Austurstræti að Aðalstræti. Á Rúntinum seig áfram hægfara straumur af körlum og konum frá klukkan níu til ellefu og að ganga tólf á kvöldin. Sumir virtust leggja þangað leiðir sínar aðeins til þess að lyfta sér upp úr heimilisandleysinu, aðrir í því skyni að staðfesta yfirburði sína í fatasamkeppni; nýr hattur, splunkunýtt forklæði, marrandi blankskór. En margir sýndust ekki eiga þangað neitt annað erindi en ... að glöggva sig á nýjum heitum í nafnaskránni. Öll andleg viðskipti þessa fólks á Rúntinum fóru fram á eins konar táknmáli. Það var fallegt mál, sem við lögðum mikið kapp á að skilja, og okkur tókst að skilja það, seint og síðar meir, eftir langa göngu í þennan þunga kvöldskóla lífsins.“

 

Þórbergur Þórðarson á sínum yngri árum.

Rúnturinn var miðdepill tilverunnar og þar urðu borgarbörnin fyrst ástfangin. Til þess að menn væru taldið með mönnum á rúntinum var nauðsynlegt að eiga góðan hatt. Maður sem bar Borsalínó-hatt frá Verslun Haraldar Árnasonar vakti mun meiri athygli en sá sem hafði bara keypt venjulegan nafnlausan hattkúf. Um 1930 kostaði Borsalínaó-hattur 25 krónur í Haraldarbúð, en verkamannakaup í þá daga voru 1,40 kr. á klukkustund og reyndir skrifstofumenn fengu greiddar um 300 kr. á mánuði.

 

Humphrey Bogart með Borsalínó-hatt á höfði.

Páll Líndal lögfræðingur sagði blómaskeið rúntsins hafa lokið á stríðsárunum síðari, en gönguferðir af þessu tagi hafi verið stundaðar af ungu fólki fram yfir 1960. Um það leyti tóku vélknúin farartæki að mestu við af tveimur jafnfljótum og það var þá sem Sigurður Þórarinsson orti: „Keyra rúntinn piltar, sem eru í stelpuleit ...“ og ekið var inn Austurstræti og síðan um Aðalstræti, Kirkjustræti, Lækjargötu og aftur Austurstræti. Hring eftir hring.

Árið 1973 var Austurstræti lokað til reynslu en árið eftir var eystri hluta götunnar lokað varanlega. Rúnturinn breyttist eðlilega við þetta og fara þurfti krók um Pósthússtræti til að komast aftur inn í Austurstræti. Á áttunda áratugnum varð Hallærisplanið miðpunktur rúntsins.

 

Bílalest niður Bankastrætið á sjöunda áratugnum.

Því miður hvarf verslunin úr Kvosinni eftir því sem leið á áttunda og níunda áratuginn, en hinn nýi rúntur hefur legið niður Laugaveginn og Bankastrætið síðustu áratugi. Það er skemmtilegur siður ungra sem aldinna Reykvíkinga að aka, ganga eða hjóla niður Laugaveginn, virða fyrir sér útstillingar í gluggum og rekast á skemmtilega kunningja.