Hér allt í kringum okkur á Laugaveginum eru söguslóðir skálda. Þar ber helst að nefna þrjú skáld. Í steinbæ sem stóð á lóðinni vestan við okkur fæddist Halldór Guðjónsson 23. apríl árið 1902. Hann tók sér síðar eftirnafnið Laxness. Svo segir hann sjálfur frá:

„Fróðir menn segja mér að ég muni ekki hafa fæðst í timburhúsinu uppí lóðinni á Laugavegi 32 þar sem stelpan misti mig útum gluggann, heldur muni það hafa gerst í steinbænum fast við götuna þar sem kötturinn stökk upp í vögguna til að læsa klónum í andlitið á barninu meðan það svaf; og var hengdur fyrir vikið.“

Þessi steinbær var líklega rifinn árið 1913 og núverandi timburhús reist.

Á Laugavegi 36, þar sem bakaríið er nú, stóð áður lítið timburhús og þar bjó skáldkonan Torfhildur Hólm um aldamótin 1900. Hún var fædd á Kálfafellsstað í Skaftafellssýslu 2. febrúar 1845. Torfhildur kom ung til Reykjavíkur þar sem hún lærði hannyrðir og ensku og giftist, en varð ung ekkja. Árið 1876 fluttist hún til Vesturheims og tveimur árum síðar birtust fyrstu smásögur hennar í einu blaða Vestur-Íslendinga.

Hún fluttist heim árið 1889 og Alþingi ákvað þá að veita henni skáldalaun, 500 kr. á ári, og mun hún vera fyrsti Íslendingurinn sem hlaut listamannalaun. Hún var vinsæll höfundur og hafði mikil áhrif, meðal annars á Halldór Kiljan Laxness, en hann sagði nafn sinnar fyrstu skáldsögu, Afturelding, dregið af nafni skáldsögu Torfhildar, Eldingu. Ekkert hefur varðveist af handriti Laxness að Aftureldingu, en hann var aðeins á þrettánda ári er hann ritaði hana.

 

Haustið 1918 varð Tómas Guðmundsson lífið og sálin í nýlendu ungra námsmanna sem bjuggu á Laugavegi 28 og 34b. Í síðarnefnda húsinu bjó Tómas uppi á lofti, en húsið var þá raflýst með steinolímótor sem Jónatan Þorsteinsson kaupmaður átti. Borgarskáldið Tómas lýsti þessum árum í kvæðinu „Við Laugaveginn“ og ekki laust við að skólaáranna sé minnst með trega:

Oft verður mér af vana gengið hér,

sem von á því ég eigi,

að gömul kvæði hlaupi móti mér

á miðjum Laugavegi.

En hérna voru skólaskáldin hyllt

af skáldbræðrum og vinum.

Og eitt var með þeim skáldum öllum skyllt:

Þau sköruðu framúr hinum.

Um heimsfrægð þá, sem hvers af okkur beið

var hinsvegar enginn vafi.

í ferskri dýrð og furðu tíminn leið.

Við féllum oft í stafi.

Og ennþá legg ég leið um forna slóð

og leita helgra dóma.

En langt er síðan list og andi stóð

við Laugaveg í blóma.