Við í Verslun Guðsteins hófum nýlega að selja vandaða leðurskó frá Digel. Því er ekki úr vegi að rifja upp nokkur atriði varðandi umhirðu skótaus, jafnt fyrir herra sem dömur:

  1. Ekki maka miklum skóáburði á skóna.
  2. Bera lítið á en oftar og hreinsa af allan skóáburð sem safnast á skóna.
  3. Alltaf að reyna skóáburðinn fyrst á hversdagsskónum áður en spariskórnir eru burstaðir.
  4. Þegar leðursólar fara að hvítna þá er gott að strjúka yfir þá með sandpappír og bera á fernisolíu, leggja skóna á hliðina og láta olíuna þorna í sólarhring. Þegar olían er borin á í þriðja sinn og dropar myndast þá má ekki fara í skóna í þrjá daga. Næst þegar sólinn hvítnar er nægir að bera olíuna á einu sinni. Fernisolían varnar því að skórinn blotni.
  5. Brúna, gula og rauða skó má laga með því að nudda upp úr blöndu af terpentínu með örlítilli mjólk út í.
  6. Skór særa síður ef sokkurinn er nuddaður upp úr sápu þar sem særinda er von.
  7. Gyllta og silfurlitaða kvenskó má hreinsa með því að nudda yfir þá með hjartarsalti.
  8. Snjáða rúskinnsskó má nudda með fíngerðri stálull. Ef þeir eru settir yfir gufu verða þeir sem nýir. Þegar rúskinnið er farið að glansa á tánum, og rúskinnsburstinn dugar ekki, er ágætt að fara yfir blettinn með sandpappír.
  9. Lakksór springa ekki ef þeir eru troðnir út með silkipappír og vaselín borið á þá.
  10. Lakkskó má laga með því að nudda yfir þá með mjúkum klút, vættum í terpentínu.