Saga saumavélarinnar

Enski uppfinningamaðurinn Thomas Saint er talinn hafa fundið upp samavélina 1790, en hann kynnti ekki þessa uppgötvun sína og það var ekki fyrr en 1874 sem teikningar hans fundust.

Austurríski klæðskerinn Josef Madersperger hóf smíði fyrstu saumavélarinnar árið 1807 og sjö árum síðar kynnti hann fyrstu vélina. Það var svo franski klæðskerinn Barthélemy Thimonnier sem fann upp fullkomnari gerð árið 1830 og ellefu árum síðar rak hann verksmiðju með 80 saumavélum þar sem saumaðir voru búningar á franska herinn, en franskir klæðskerar sem óttuðust um að missa lífsviðurværi sitt eyðilögðu verksmiðjuna og ekkert varð úr frekari framþróun saumavélarinnar þar í landi næstu áratugina.

Bandaríkjamaðurinn Walter Hunt fann upp saumavél árið 1832 þar sem nálin var með gati sömu megin og oddurinn. Hunt missti fljótt áhugann á þessari uppfinningu sinni og seldi hana. Réttum áratug síðar kynnti annar Bandaríkjamaður, John Greenough fyrstu samavélina sem framleidd var þar í landi og árið 1845 kynnti Elias Howe betrumbætta útgáfu af uppfinningu Hunts. Howe kynnti uppfinningu sína í Englandi en fékk dræmar undirtektir svo hann hélt aftur til Bandaríkjanna og komst m.a. í kynni við Isaac Merrit Singer.

Singer var verkfræðingur að mennt og betrumbætti hann hugmyndir þeirra þriggja, Thimonniers, Hunts, and Howes. Singer var m.a. þeirrar skoðunar að nálin ætti að vera bein en ekki bogin, eins og fram að því hafði tíðkast. Árið 1851 hlaut hann einkaleyfi á saumavél sinni sem m.a. var fótstiginn sem var byltingarkennd nýjung á þeim tíma. Til langvinnra málaferla kom milli þeirra Howes og Singers og var Singer dæmdur til að greiða Howes gríðarlegar fjárhæðir í skaðabætur vegna brota á einkaleyfarétti Howes. Singer hélt þó ótrauður rekstrinum áfram og í samstarfi við lögmanninn Edward Clark komu þeir á fót fyrsta kaupleigufyrirtæki sem vitað er um, en þá var kaupverð saumavélanna greitt á löngum tíma.

Fyrstu kaupendur saumavéla voru fataframleiðendur, en á þessum árum færðist í vöxt að föt væru framleidd „í stokk“ eða „í lagersaum“ eins og það var kallað hér á landi. Á sjöunda áratug 19. aldar varð saumavélin hins vegar að neysluvöru og brátt urðu saumavélar algengar á heimilum millistéttarfólks beggja vegna Atlantshafsins. Áður hafði það tekið húsfreyju á Bretlandseyjum um það bil hálfa fimmtándu klukkustund að sauma herraskyrtu í höndunum, en þessi vinna tók ekki nema um eina klukkustund í saumavél. Singer Sewing Co. kynnti saumavél með rafmagnsmótor árið 1889 og eftir því sem fleiri heimili fengu rafmagn jukust vinsældir þessarar vélar. Singer varð eitt fyrsta alþjóðafyrirtækið og kom snemma á fót verksmiðjum í Brasilíu, Kanada, Þýskalandi, Rússlandi og Skotlandi, að ekki sé minnst á aðalverksmiðjuna í Clydebank í Bandaríkjunum þar sem störfuðu 12 þúsund starfsmenn þegar á 19. öldinni. Árið 1904 var salan komin upp í 1,3 milljónir saumavéla á ári, en um líkt leyti fóru Bandaríkjamenn fram úr Bretum í landsframleiðslu.

 

 

Singer þótti sjálfur ekki sérlega geðþekkur maður. Hann átti til að mynda 24 börn með fimm konum, en uppfinning hans breytti heiminum til hins betra. Það er ekki víst að nútímamenn, sem flestir sauma ekki meira en tölu á skyrtu, geri sér grein fyrir þeirri byltingu sem fólst í því að létta störfin fyrir konum sem þræluðu daginn út og inn, að ekki sé minnst á þau margföldu afköst sem fylgdu og gerðu öllum almenningi á Vesturlöndum kleift að eignast almennilegan fatnað. Í Verslun Guðsteins má finna nokkrar gamlar saumavélar sem notaðar voru lengi í rekstrinum. Þar á meðal er Singer vélin sem sést á meðfylgjandi mynd sem kom til verslunarinnar á fyrstu árum hennar og var notuð í fyrirtækinu um áratugaskeið.