Guðsteinn Eyjólfsson 1890 - 1972
Guðsteinn Eyjólfsson var fæddur í Krosshúsum í Grindavík 1. janúar 1890 og ólst þar upp. Hann fluttist 18 ára að aldri til Reykjavíkur og lærði klæðskurð, fyrst í Thomsens magasíni og þvínæst hjá Hans Andersen & sön. Guðsteinn lét mjög vel af veru sinni hjá síðarnefnda fyrirtækinu, en hjá H. Andersen & sön störfuðu fimm íslenskir sveinar í þann tíma sem Guðsteinn var þar. H. Andersen & sön var elsta og stærsta klæðaverslun og saumastofa landsins á þeim tíma, en firmað var stofnað árið 1887.
Síðar hélt Guðsteinn utan til Kaupmannahafnar til að ljúka meistaranámi í klæðskurði. Dvaldi hann þar við nám í tvö ár. Löngu síðar lýsti hann herratískunni anno 1913 fyrir blaðamanni Lesbókar Morgunblaðsins. Hefðu sniðin almennt verið nokkuð þröng og jakkar fremur síðir. Aðeins hefði verið saumað eftir máli og úr vönduðum innfluttum efnum frá Englandi. Föt hefðu verið ákaflega dýr á þeim tíma og jafnaðarlega greidd með afborgunum, en þau hefðu að sama skapi enst lengur en seinna varð raunin.
Guðsteinn kvæntist 9. nóvember 1913 Guðrúnu Jónsdóttur frá Miðhúsum í Hvolhreppi, en hún var fædd 28. maí 1893. Guðrún hafði flust með foreldrum sínum til Reykjavíkur skömmu eftir aldamótin, en bær þeirra brotnaði tvívegis í jarðskjálftum.
Guðrún var annáluð hannyrðakona og vann við saumaskap, en þau Guðsteinn munu hafa unnið saman, að öllum líkindum hjá Andersen & sön. Guðrún fékkst alla tíð við saumaskap, merkti hún meðal annars dúka og rúmföt. Þótti hún hafa einstakt lag á klaustursaum og frönsku og ensku bróderíi. Guðrún var einkar skipulögð og ólík manni sínum að því leyti. Þau munu þó hafa bætt hvort annað upp, en samband þeirra þótti sérlega gott og sýndu þau hvort öðru mikla virðingu. Síðar sagði Guðsteinn svo frá í blaðaviðtali að hann ætti konu sinni allt að þakka, alla sína afkomu, allt sitt lífsstarf. Hún hefði verið „einstök manneskja á öllum sviðum“. Guðrún og Guðsteinn hófu búskap að Skólavörðustíg 2A og bjuggu þar uns þau réðust í að selja búslóðina og keyptu sér íbúð á Grettisgötu 55. Þetta var árið 1918 og sama ár hóf Guðsteinn sjálfstæðan rekstur.
Þeim hjónum varð átta barna auðið. Elst var Hólmfríður María, fædd 1914. Hún lærði bindasaum í Danmörku og framleiddi hálsbindi til sölu í verslun föður síns áratugum saman. Næstur í röðinni var Jón Óskar, fæddur 1916, vélsmiður, þá Eyjólfur, fæddur 1918, kaupmaður í verslun föður síns, síðan Kristinn, fæddur 1921, garðyrkjumeistari og listmálari, þá næst Sigursteinn, fæddur 1924, framkvæmdastjóri hjá BM Vallá. Sjötta í röðinni er Vilborg, fædd 1927, húsfreyja, þá Ársæll, fæddur 1929, rafvirki og kaupmaður, og loks Málfríður, fædd 1931, húsfreyja. Þau eru nú öll látin.
Þau Guðsteinn og Guðrún áttu landskika í Laugarnesi, svonefnt Kirkjuland, sem var erfðafestuland. Á sumrin var búsmalinn hafður þar inn frá og mjólkin sótt þangað. Þar voru lömb, gæsir, hænsni og meira að segja svín um tima. Á Kirkjulandi voru einnig ræktaðar kartöflur. Kristinn, sonur þeirra, bjó síðar á Kirkjulandi, en hann var lærður garðyrkjumeistari og byggði þar gróður- og vélahús.
Guðrún lést langt um aldur fram 13. nóvember 1942, eftir að hafa fengið skyndlega sýkingu, en hún hafði þó alla tíð verið mjög heilsuhraust. Börn þeirra hjóna voru þá sum hver enn á unglingsaldri. Fjölskyldan átti þá því láni að fagna að eiga að góða vinnukonu, Ástu Níelsdóttur, frá Svefneyjum á Breiðafirði, sem annaðist heimilið af miklum myndarskap eftir fráfall Guðrúnar. Sá hún um heimili fjölskyldunnar æ síðan.
Blaðamaður Lesbókar Morgunblaðsins átti viðtal við Guðstein skömmu fyrir jólin 1963. Þar sagði hann að með batnandi efnahag og auknum framförum hefði öllu farið fram og bætti því við að óhætt væri að segja að allt hefði breyst og velmegunin aukist ótrúlega. Fólk væri farið að kaupa dýrari vörur en áður og spyrði ekki eins mikið um verð. Guðsteinn sagði í lok viðtalsins að tímarnir hefðu auðvitað mátt breytast – „því að þetta var ekkert líf hjá fólkinu í gamla daga, hreint ekkert líf“.
Guðsteinn Eyjólfsson lést 11. júlí 1972, 82 ára að aldri.