Upphaf Verslunar Guðsteins
Guðsteinn Eyjólfsson klæðskeri hóf sjálfstæðan rekstur við Grettisgötu árið 1918. Um 1922 keypti hann einlyft timburhús við Laugaveg 34, en í því húsi hafði meðal annars verið sölubúð. Flutti Guðsteinn klæðskeraverkstæði sitt í annan hluta þessa húss, en í hinum hluta þess var skósmíðaverkstæði. Við húsið að Laugavegi 34 var einnig skúr þar sem Þorkell Sigurðsson rak úrsmíðaverkstæði. Þorkell flutti síðar starfsemi sína neðar á Laugaveginn. Á lóðinni var einnig annar skúr þar sem Guðsteinn hafði kýr og hænsni yfir vetrartímann.
Auglýsing úr Morgunblaðinu frá 1944. Verslun Guðsteins var með umboð fyrir hina vönduðu Wilson´s hatta í meira en sjötíu ár.
Guðsteinn fékkst þó ekki eingöngu við klæðskurð heldur stóð hann í talsverðum innflutningi á fatnaði og skóm. Hann fékk snemma umboð fyrir hina kunnu Wilson-hatta, en þeir voru seldir í versluninni allt þar til fyrir fáeinum árum. Guðsteinn flutti alla vöru inn sjálfur, þar á meðal öll aðföng til framleiðslunnar.