Skömmu eftir að verslunin flutti í nýtt og rúmbetra húsnæði skall á heimskreppa með miklu atvinnuleysi og innflutningshöftum. Guðsteinn lýsti því svo sjálfur síðar að fólkið hefði ekki haft neina peninga – alls enga. Illa gekk að innheimta skuldir viðskiptavina og allt var greitt með óreglulegum afborgunum. Guðsteinn naut á þessum árum mjög aðstoðar Eyjólfssonar síns, sem mjög ungur tók að mestu við rekstri verslunarinnar. Eyjólfur var æ síðan hægri hönd föður síns.

Þá unnu að jafnaði þrjár saumakonur á klæðskeraverkstæðinu, en margt var þá unnið í höndunum sem nú er einvörðungu gert í vélum. Til að mynda voru öll hnappagöt kappmelluð í höndum og þá fór mikil vinna í að pilla þræðingar úr fötum. Á saumastofunni voru saumaðir frakkar, náttföt, buxur og tweed-jakkar í legersaum, en jakkaföt voru saumuð eftir máli.

Vegna innflutningshafta kom Guðsteinn á laggirnar skyrtugerð árið 1937 og þá fyrst fór hagur fyrirtækisins verulega að vænkast. Skyrtugerðin var í byrjun staðsett í betri stofunni hjá þeim Guðrúnu og Guðsteini, en fluttist síðar á aðra hæð hússins. Skyrturnar voru framleiddar undir merkinu Reylon, nefndar í höfuðið eftir samnefndu sjálfstýfingarefni.