Jakkafötin fyrr og nú

Síðustu fjögur hundruð árin hafa jakkar og buxur og eftir atvikum vesti í sama lit og úr sama efni notið vinsælda, en stundum hefur fremur þótt við hæfi að buxur séu ljósari að lit. Á 17. öld varð til klæðnaður við konungshirðir Evrópu, þar sem saman fóru jakki, vesti og hnébuxur úr sama efni og að sama lit. Líkt og í annarri tísku voru það Frakkar sem settu viðmiðið og tískan við hirð Loðvíks XIV. barst til Karls II. Englandskonungs, en þar í landi festu jakkafötin sig í sessi og þróuðust á næstu áratugum og öldum.
Jakkafötin urðu með tíð og tíma hinn formlegi klæðnaður karlmanna á Vesturlöndum. Snemma á 19. öld fóru þau að líkjast jakkafötum nútímans en í Bretlandi varð brátt í tísku að klæðast dökkum og þröngum jökkum með stéli við ljósar buxur, ljóst vesti, hvíta skyrtu, klút um hálsinn og há leðurstígvél.

Þegar leið lengra á 19. öld náði nýr jakki vinsældum, en hann var hnésíður og gjarnan tvíhnepptur. Á ensku nefnist þessi jakki „frock coat“. Um miðja öldina urðu opnir jakkar vinsælir, eða „morning coat“ á ensku, en þessir jakkar voru áþekkir kjólfatajökkum nútímans og opnir að framanverðu, sem auðveldaði mönnum að sitja í þeim við útreiðar. Almennt klæddust menn ekki þessum jökkum við samlitar buxur, en samlitur jakki og buxur þótti á þeim tíma óformlegri klæðnaður svo undarlega sem það hljómar í nútímanum. „Frock coat“ var notaður við öll formleg tilefni og jakkar með stéli varð kvöldklæðnaður.

Jakki og buxur úr sama efni og af sama lit urðu aftur vinsæl síðla á 19. öld, en þá einkum til að nota við óformleg tilefni, svo sem í útivist og á ferðalögum. Um líkt leyti komust styttri jakkar í tísku og klæddust menn þeim við óformlegri tilefni. Brátt varð til tvenns konar formlegur klæðnaður, sem á ensku nefnist annars vegar „white tie“ og hins vegar „black tie“. „White tie“ varð fyrr en varði alklæðnaður, svartur jakki með stéli, samlitar buxur, hvít skyrta og slaufa, og vesti í stíl. Þar með urðu til nútíma kjólföt. „Black tie“ sló í gegn í Nýja heiminum, en þá var jakkinn stuttur og hnepptur að framaverðu. Bandaríkjamenn nefndu þennan klæðnað „tuxedo“ og gera enn, en hér á landi eru þau föt kölluð smókingföt.

 

 

Guðsteinn Eyjólfsson lærði klæðskurð fyrst í Thomsens magasíni og síðar hjá Andersen og Sön í Aðalstræti 16. Þetta var um 1910, en hálfri öld síðar lýsti Guðsteinn tískunni á þessum árum svo fyrir blaðamanni Lesbókar Morgunblaðsins að sniðin hefðu almennt verið nokkuð þröng og jakkar fremur síðir. Aðeins hefði verið saumað eftir máli og úr vönduðum innfluttum efnum frá Englandi. Föt hefðu verið ákaflega dýr á þeim tíma og jafnaðarlega greidd með afborgunum, en þau hefðu að sama skapi enst lengur en seinna varð raunin.

Er leið á lokum fyrri heimsstyrjaldar varð klæðaburður jafnt kvenna sem karla frjálslegri og þá komust stuttir jakkar í tísku. Eldri menn héldu þá áfram að klæðast síðum jökkum sem þá var farið að kalla „Prince Albert Coat“ í Bretlandi. Kjólföt voru áfram formlegur klæðnaður hjá körlum, en í Bandaríkjunum hurfu síðu jakkarnir mun fyrr og aðeins eldri íhaldsamir menn sem héldu áfram að klæðast slíkum jökkum.

 

 

Á þriðja áratugnum víkkuðu sniðin á buxum mikið og þá komust uppábrot í tísku. Mittið færðist mjög ofarlega og hélst uppi fram undir lok síðari heimsstyrjaldar. Jakkar voru þröngir fram á miðjan fjórða áratuginn þegar laus snið komust í tísku og hélst sú tíska fram á áttunda áratuginn er þröngir jakkar urðu enn á ný vinsælir. Þessar breytingar urðu þó allar hægar, en allt fram á þennan dag hefur herratískan breyst mjög hægt.

Á árunum eftir síðari heimsstyrjöld varð til miðlungs formlegur klæðnaður, sem í Bandaríkjunum er kallaður stroller, en hér á landi er nefndur sjakket. Sjakket dregur dám af tísku 19. aldar, en þá klæðast menn ljósum buxum, oft röndóttum, við svartan jakka með stéli. Sjakket var hálfgerður einkennisklæðnaður ráðamanna þjóðarinnar um miðja 20. öld.

 


Á fimmta og sjötta áratugnum urðu snið jakkafata sífellt einfaldari, til að mynda minnkaði kraginn mikið. Kragar með hornum urðu æ sjaldséðari. Jakkar urðu beinir, en aðniðnir jakkar komust síðar aftur í tísku. Tvíhneppt föt hafa af og til orðið móðins umliðna áratugi og sama er að segja um vestin. Þau koma og fara.

Lengi framan af voru jakkaföt framleidd í Verslun Guðsteins og þá saumuð eftir máli, en þegar losnaði um innflutningshöft á sjöunda áratugnum hófst innflutningur jakkafata. Framan af voru seld ensk föt í versluninni, en nú eru alfarið seld þýsk jakkaföt, en þýsk snið fara íslenskum karlmönnum mun betur en ensk. Íslenskir karlmenn eru til að mynda mun herðabreiðari en þeir hinir ensku. Í Verslun Guðsteins fást hin kunnu jakkaföt frá Digel, ákaflega vönduð vara úr úrvalsefnum.