Eftir stríð og fram til nútímans

Árið 1950 kom Guðsteinn á fót prjónastofu í húsinu til að anna þörfum verslunarinnar, en til þeirrar starfsemi var keypt gríðarstór hringprjónavél, sem náði þvert í gegnum húsið. Kristinn, sonur Guðsteins, starfaði lengst af á prónastofunni. Á þeim árum voru einnig saumaðir gaberdínfrakkar á saumastofunni að amerískri fyrirmynd. Upp úr 1960 dró úr innflutningshöftum og þá var framleiðslu jakkafata hætt. Skyrtur og peysur voru þó framleiddar í versluninni langt fram eftir áttunda áratugnum.

Blaðamaður Lesbókar Morgunblaðsins átti viðtal við Guðstein skömmu fyrir jólin 1963. Þar sagði hann að með batnandi efnahag og auknum framförum hefði öllu farið fram og bætti því við að óhætt væri að segja að allt hefði breyst og velmegunin aukist ótrúlega. Fólk væri farið að kaupa dýrari vörur en áður og spyrði ekki eins mikið um verð. Guðsteinn sagði í lok viðtalsins að tímarnir hefðu auðvitað mátt breytast – „því að þetta var ekkert líf hjá fólkinu í gamla daga, hreint ekkert líf“.

Guðsteinn Eyjólfsson lést 11. júlí 1972, 82 ára að aldri. Eftir andlát hans var verslunin rekin með óbreyttu sniði í fjögur ár uns Hólmfríður María og Eyjólfur Guðsteinsbörn keyptu hluti systkina sinna. Hólmfríður fluttist við svo búið í húsið og bjó þar, allt þar til hún lést. Eyjólfur sá um rekstur fyrirtækisins fram til dauðadags haustið 2004. Síðustu fimmtán árin naut hann þó aðstoðar dóttur sinnar, Svövu, sem tók við alfarið við rekstrinum að föður sínum látnum.

Svava rak verslunina til ársins 2016, en snemma það ár keyptu hjónin Rannveig Eir Einarsdóttir og Hilmar Þór Kristinsson reksturinn af afkomendum Guðsteins. Frá sama ári hefur Sólveig Grétarsdóttir stýrt Herrafataverslun Guðsteins.